John Lindsay hf., var stofnað á Bretlandseyjum árið 1926. Það var Skotinn John Lindsay sem stofnaði fyrirtækið og rak árum saman. Skömmu eftir stofnun fyrirtækisins kom hann til Íslands, fyrst og fremst í þeim tilgangi að aðstoða breskar togaraútgerðir með kost og aðrar vistir.
Smátt og smátt fór hann að sjá tækifæri til sölu á ýmsum öðrum breskum, og kannski sérstaklega skoskum vörum. Thermos hitabrúsar var eitt af því fyrsta. En Thermos umboðið hjá Lindsay er elsta söluumboð utan UK í heiminum.
Árið 1966 keypti Guðjón Hólm hdl. ásamt félögum sínum reksturinn. Fyrir voru þeir allir í öðrum rekstri, ýmist saman eða hver fyrir sig. Þar á meðal var rekstur fyrirtækjanna Reykhúsið, Kjötver, Lífstykkjabúðin og Sæbjörg. Guðjón rak lögmannsstofu í Reykjavík en hafði samhliða gegnt um tíma stöðu framkvæmdastjóra Tívolísins í Vatnsmýrinni. Í dag eiga og reka tveir synir Guðjóns John Lindsay.
Í upphafi var fyrirtækið umboðsverslun. Lagerhald og vörudreifing var því í lágmarki. Þá var sala á byggingarvörum fyrirferðamest í sölu fyrirtækisins þó matvaran hafi þó alltaf fylgt með frá upphafi. Núna felst megin starfsemin í innflutningi, sölu og dreifingu á vörum til matvöruverslana, lyfjabúða, veitingahúsa og mötuneyta og er vörunum dreift daglega með bílum fyrirtækisins um land allt.