Saga Lindsay

Skotinn John Lindsay kom til landsins 1924, þá 28 ára gamall starfsmaður bresks fyrirtækis, í þeim erindagjörðum að kaupa fisk fyrir fyrirtækið. Hann féll þegar fyrir landi og þjóð og settist að lokum hér að. Fyrstu ár sín á Íslandi bjó hann á gamla Hótel Íslandi, sem var þar sem nú er Ingólfstorg í miðbæ Reykjavíkur. Lindsay stofnaði umboðsverslunina John Lindsay árið 1926 og var lengst af með reksturinn í litlu herbergi á 2. hæð í Austurstræti 14. Hann kvæntist Sigurborgu Ólafsdóttur og bjuggu þau við Hraunteig.

Smátt og smátt fór John Lindsay að sjá tækifæri til sölu á ýmsum öðrum breskum, og kannski sérstaklega skoskum vörum.  Thermos hitabrúsar var eitt af því fyrsta.  En Thermos umboðið hjá Lindsay er elsta söluumboð utan UK í heiminum.

Árið 1966 keypti Guðjón Hólm hdl. ásamt félögum sínum reksturinn.  Fyrir voru þeir allir í öðrum rekstri, ýmist saman eða hver fyrir sig.  Þar á meðal var rekstur fyrirtækjanna Reykhúsið, Kjötver, Lífstykkjabúðin og Sæbjörg.  Guðjón rak lögmannsstofu í Reykjavík en hafði samhliða gegnt um tíma stöðu framkvæmdastjóra Tívolísins í Vatnsmýrinni.

Í upphafi var fyrirtækið umboðsverslun. Lagerhald og vörudreifing var því í lágmarki. Þá var sala á byggingarvörum fyrirferðamest í sölu fyrirtækisins þó matvaran hafi þó alltaf fylgt með frá upphafi.

Framleiðsla, innflutningur, sala, dreifing og markaðssetning

Stefán S. Guðjónsson, sonur Guðjóns Hólm, var framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, sem nú er Félag atvinnurekenda, í 10 ár, og tók við stjórninni hjá Lindsay árið 2002. Í dag er Lindsay í eigu Stefáns og fjölskyldu og er skrifstofa og lager í nýju húsnæði að Klettagörðum 23. Lindsay þjónustar nú allar matvöruverslanir á Íslandi, ýmsa veitingastaðir og mötuneyti, flestar lyfjabúðir og byggingavöruverslanir. Starfsfólk Lindsay sér um sölu, dreifingu og markaðssetningu á vörum og vörumerkjum Lindsay.

John Lindsay hf. á og rekur einnig matvælafyrirtækið Agnar Ludvigsson ehf. sem framleiðir Royal-vörurnar, þar á meðal Royal-búðinga og Royal-lyftiduft. Nýlega hóf verksmiðjan framleiðslu á kryddblöndunum „Best á …“ eins og til dæmis Best á lambið, Best á fiskinn og Best á allt.